Eineltisáætlun

Eineltisáætlun Naustaskóla

Stefnuyfirlýsing:

Einelti og ofbeldi er ekki liðið í Naustaskóla. Skólinn á að vera öruggur staður þar sem nemendum og starfsfólki líður vel. Ef einelti kemur upp er tekið á því strax.

Lykilþáttur í Naustaskóla í vinnu tengdri einelti er starf samkvæmt agastefnu skólans sem nefnist Jákvæður agi, þar sem bekkjafundir eru mikilvægt verkfæri. Einnig er stuðst við aðferðir  Olweusar gegn einelti, m.a. við handbók um Olweusaráætlunina en sú áætlun sem hér birtist gefur grófa mynd af helstu þáttum sem byggt er á. 

 

Skilgreining á einelti:

Einstaklingur er lagður í einelti ef hún eða hann verður fyrir endurteknum neikvæðum verknaði eins eða fleiri einstaklinga yfir ákveðið tímabil. 

Þrennt þarf að koma til svo að einelti teljist vera til staðar:

  • Árásarhneigt eða illa meint atferli.
  • Um er að ræða endurtekningu sem stendur yfir ákveðinn tíma.
  • Ójafnvægi afls og valda í samskiptum.

Vísbendingar um einelti:

Einhverjar eftirtalinna vísbendinga koma gjarnan fram ef um einelti er að ræða:

Tilfinningalegar:

  • Breytingar á skapi.
  • Tíður grátur, þarf lítið til að tárin komi fram.
  • Svefntruflanir, getur ekki sofið, fær martraðir.
  • Matarvenjur breytast, lystarleysi, ofát.
  • Þunglyndi.

Líkamlegar:

  • Líkamlegar kvartanir, t.d. höfuðverkur, magaverkur.
  • Kvíðaeinkenni eins og að naga neglur, stama, kækir ýmiss konar.
  • Rifin föt og/eða skemmdar eigur / hvarf á eigum.
  • Líkamlegir áverkar.

Félagslegar:

  • Lítið sjálfstraust, hræðsla og kvíði.
  • Barnið virðist einangrað, einmana, fær ekki heimsóknir og fer ekki í heimsóknir, forðast t.d. að fara í afmælisboð.

Hegðun:

  • Óútskýranleg skapofsaköst og/eða grátköst.
  • Hegðunarerfiðleikar.

Skóli:

  • Barnið hræðist að fara eitt úr og í skóla, biður um fylgd og/eða fer aðra leið.
  • Leggur fyrr af stað í skólann en venjulega eða fer seinna af stað.
  • Skróp.
  • Barnið mætir iðulega of seint.
  • Forðast ákveðnar aðstæður í skólanum t.d. leikfimi eða sund.
  • Lægri einkunnir, einbeitingarörðugleikar í námi.
  • Einangrun frá skólafélögum.

Heimili:

  • Barnið neitar að fara í skólann.
  • Einangrar sig frá öðrum í fjölskyldunni.
  • Aukin peningaþörf hjá barninu.
  • Barnið neitar að leika sér úti eftir skóla.
(Hér má finna bækling fyrir foreldra með ýmsum upplýsingum og ráðleggingum varðandi einelti)
 

Eineltisteymi:

Nemendaverndarráð gegnir hlutverki eineltisteymis í Naustaskóla. Í ráðinu sitja skólastjórnendur, námsráðgjafi, skólahjúkrunarfræðingur og viðkomandi umsjónarkennari þegar fundað er um eineltismál. Auk þess sitja sérfræðingar fjölskyldudeildar fundina reglulega, þ.e. kennsluráðgjafi, sálfræðingur og félagsráðgjafi. Nemendaverndarráð fundar vikulega.

Fulltrúar nemendaverndarráðs eru til ráðgjafar fyrir kennara, til aðstoðar í viðtölum við foreldra og nemendur og vinna að úrlausn mála í samráði við umsjónarkennara.

Ráðið skal einnig vera leiðandi í umræðu og fyrirbyggjandi aðgerðum gegn einelti í Naustaskóla, vekja athygli á hugmyndum, kennsluefni, blaðagreinum og umræðum í þjóðfélaginu er varða einelti og viðhalda faglegri þekkingu sinni á þessu sviði.

 

Fyrirbyggjandi aðgerðir:

  • Nemendur séu fræddir um stefnu skólans:Einelti og ofbeldi er ekki liðið. Nemendur hvattir til að taka afstöðu gegn einelti og til að láta vita ef þeir eða aðrir verða fyrir einelti. Á hverju hausti er farið yfir stefnuna ásamt skólareglum og fjallað um eineltishringinn, dæmisagan um ”Pappírs-Kalla” sögð og Kalli látinn hanga uppi á vegg. Mynd af eineltishring sé til staðar á öllum heimasvæðum nemenda. Hver námshópur setji sér samskiptareglur í upphafi vetrar.  Sýnd séu myndbönd og haldið uppi fræðslu í samráði við forvarnarfulltrúa bæjarins.  Námsefnið Vinir Zippý notað í lífsleiknikennslu í yngstu bekkjunum, bekkjarfundir haldnir í hverjum hóp a.m.k. tvisvar í viku, oftar ef þurfa þykir. Dagskrárblöð / dagskrárkassar fyrir bekkjarfundi séu til staðar fyrir alla hópa.Ábyrgð: Umsjónarkennarar.
  • Foreldrar fái upplýsingar um stefnu skólans í eineltismálum, nýir foreldrar í hópnum fái fræðslu um stefnu skólans á skólafærninámskeiði að hausti eða við upphaf skólagöngu barns. Á hverri haustönn verði foreldrum sendar upplýsingar úr eineltisáætlun skólans í fréttabréfi, s.s. um einkenni eineltis.  Foreldrar hvattir til að hafa samband við umsjónarkennara eða skólastjórnendur hafi þeir grun um einelti eða ofbeldi í skólanum.  Eineltisstefna skólans skal vera aðgengileg á heimasíðu skólans, einnig handbók fyrir foreldra um einelti. Ábyrgð: Skólastjóri.
  • Skólinn beiti sér fyrir foreldrastarfi, þ.e. að foreldrar hvers bekkjar þekkist og kynnist í starfi með börnunum s.s. á bekkjarkvöldum.  Foreldrafulltrúar séu tilnefndir sem bera ábyrgð á slíkum samkomum en stjórn Foreldrafélagsins fylgir því eftir að haldnar séu a.m.k. tvær bekkjarsamkomur á ári.  Ábyrgð: Umsjónarkennarar/Foreldrafélag.
  • Starfsmenn séu vakandi fyrir því að einelti getur komið upp og skulu vera tilbúnir til að bregðast strax við verði þeir vitni að slíku og koma upplýsingum á framfæri við viðkomandi umsjónarkennara. Allar vísbendingar skráðar í mentor. Gott er að hafa í huga að skrá einnig jákvætt atferli eða aðstoð við þolanda. Ábyrgð: Allir starfsmenn.
  • Gerð sé grein fyrir framgangi eineltismála á vinnustaðafundum og starfsmenn þannig upplýstir um hvaða vinna fer fram og hverju þarf að hafa vakandi auga með í nemendahópnum.Ábyrgð: Skólastjóri
  • Haldnir séu starfsmannafundir tvisvar á vetri þar sem sérstaklega er farið yfir eineltisáætlun skólans og valda þætti í handbók um Olweusaráætlunina gegn einelti. Við þau tækifæri skal einnig renna yfir eineltismál sem komið hafa upp og vinnubrögð metin og endurskoðuð.  Milli hópafunda skal vakin athygli á einstökum þáttum eineltisáætlunar og handbókar og starfsmenn fræddir eftir því sem þurfa þykir.Ábyrgð: Námsráðgjafi.
  • Nýir starfsmenn fái fræðslu um stefnu skólans varðandi aga- og eineltismál, kennarar fái þjálfun í notkun bekkjarfunda.  Ábyrgð: Skólastjóri.
  • Lagðar eru fyrir tengslakannanir og líðankannanir árlega. Ábyrgð: Námsráðgjafi og skólastjóri.
  • Lögð sé áhersla á að í kennslustundum eru nemendur á ábyrgð kennara þar til kennslustund lýkur, á þeim tíma eiga nemendur ekki að vera eftirlitslausir.    Tryggt sé að gæsla sé fullnægjandi þar sem nemendur eru að leik og störfum s.s. í næðisstundum, frímínútum, matarhléum, búningsklefum o.s.frv.  Ábyrgð: Skólastjóri.

Viðbrögð við einelti:

Fyrstu viðbrögð ef starfsmaður verður vitni að árekstrum, stríðni eða einelti:

  • Reyna að greina hvað er á ferðinni, er það ærslafullur leikur, alvöruslagur eða einelti.  Vísbendingar: Samskipti aðila (tveir eða fleiri gegn einum), tjáning, svipbrigði og andrúmsloft (vinveitt/óvinveitt), jafnvægi í styrkhlutföllum (jafnt/ójafnt), er atferlið endurtekið?  (Sjá nánar bls. 37 í handbók)
  • Bregðast strax við alvöruslag og einelti með íhlutun.
  • Vera nálægt þeim nemanda sem rætt er við, ná augnsambandi!
  • Vera stuttorður og ganga út frá atburðinum.
  • Vera ákveðinn og láta ekki tilfinningar stjórna sér.
  • Ekki vera með innantómar hótanir.
  • Muna að hlúa að þolanda.
  • Nauðsynlegt getur reynst að senda geranda/gerendur á skrifstofu þar sem hann bíður eftir þeim starfsmanni sem kom að aðstæðum. Síðan þurfa viðkomandi starfsmaður og umsjónarkennari að ræða við geranda í einrúmi við fyrsta tækifæri, tryggt sé að slíkt misfarist ekki. (sjá bls. 41-44 í handbók). 
  • Starfsmaður skráir atburðinn í dagbók nemanda í mentor eða tilkynnir það til umsjónarkennara. Síðan tekur umsjónarkennari málið í sínar hendur, skráir málið í dagbók nemanda í mentor ef með þarf og gætir þess að ferill málsins sé skráður þar.
  • Umsjónarkennari (eða námsráðgjafi) kannar málsatvik bæði í málum þar sem alvarlegar uppákomur hafa orðið, og einnig í málum þar sem ábending eða grunur hefur komið upp.
  • Við þá könnun eru notaðar leiðir sem fjallað er um á bls. 78-80 í handbók:
    • Umsjónarkennari fylgist með nemendum sem hlut eiga að máli
    • Kannar hjá öðrum kennurum og starfsfólki og biður viðkomandi að fylgjast með líka
    • Kannar e.t.v. með spurningalista, tekur stutt einstaklingsviðtöl við nemendur eða úrtak nemenda
    • Leggur hugsanlega fyrir tengslakönnun í samráði við námsráðgjafa.
    • Hefur samband við foreldra hugsanlegs fórnarlambs til að kanna líðan og fá liðsinni þeirra
  • Umsjónarkennari gerir foreldrum gerenda og þolanda viðvart og segir þeim hvernig unnið verður með málið innan skólans. Í alvarlegri málum er rétt að boða foreldra í skólann og hafa stjórnendur með í slíku viðtali.
  • Umsjónarkennari leitar aðstoðar stjórnenda og/eða námsráðgjafa eftir því sem honum þykir þurfa í framangreindum viðbrögðum.  Mikilvægt er að nemendaverndarráð sé upplýst um öll eineltismál sem unnið er að.

Einstaklingsbundnar aðgerðir í eineltismálum: (í mörgum tilfellum er hagstætt að námsráðgjafi taki að sér að stjórna ferlinu í stað umsjónarkennara en mikilvægt er að umsjónarkennari sé ætíð upplýstur og með í ráðum)

  1. Umsjónarkennari tekur einstaklingsviðtöl við gerendur með aðstoð samstarfsmanns og hefur þá að leiðarljósi eftirfarandi:
    1. “Ég veit að nokkrir nemendur hafa verið vondir við x og tel að hann/hún sé lögð í einelti.  Það er líka vitað að þú ert ein/n af þeim sem á hlut að máli. Eins og þú veist sættum við okkur ekki við einelti hér í skólanum og nú ætlum við að sjá til þess að eineltið stoppi. Hvað segir þú um það?
    2. Við upplýsum ekki gerendur um hvaðan upplýsingar eru komnar. Þær eru fengnar frá mörgum aðilum.
    3. Ef gerandi bendir á að aðrir séu viðriðnir málið líka, þá bendum við á að við vitum af því, eða þökkum fyrir upplýsingar um það, en leggjum áherslu á að nú sé aðeins verið að ræða um þátt viðmælandans. Tökum fram að síðar verði rætt við aðra aðila málsins.
    4. Láta geranda vita að fylgst verður með hvernig málin þróast og ákveðið hvenær þið talið saman næst, eftir nokkra daga.
    5. Muna að hrósa og hvetja til áframhaldandi góðra verka ef vel hefur tekist til.
    6. Sjá nánar bls. 78-83 í handbók.
    7. Einstaklingsviðtöl við geranda/gerendur þarf að endurtaka um nokkurn tíma til að fylgjast með hvernig geranda gengur að hætta. Munið að ræða við gerendur einslega áfram því að reynslan sýnir að þannig næst meiri einlægni og síður hætta á að umræðan snúist upp í kvartanir undan þolanda eða einhverjum starfsmönnum.
  2. Umsjónarkennari boðar foreldra geranda/gerenda til fundar í skólanum eða ræðir við þá í síma eftir alvarleika málsins. Munið að forðast ásakanir en leggja málið frekar upp þannig að á ferðinni sé vandi sem þarf að taka á sameiginlega. 
  3. Umsjónarkennari tekur einstaklingsviðtöl við þolanda og hefur þá eftirfarandi að leiðarljósi:
    1. “Ég veit að krakkar.... eru andstyggilegir við þig og ég vil fá að vita meira um hverjir og hvernig...” (Skráið hjá ykkur)
    2. “Við ætlum að vinna markvisst að því að stöðva eineltið” – lýsa því hvernig unnið verður.
    3. Vera styðjandi við þolandann og gefa honum tækifæri á að lýsa líðan sinni.
    4. Bjóða upp á aðstoð og viðtöl við aðra s.s. námsráðgjafa, deildarstjóra sérkennslu og/eða sálfræðing skólans (tilvísun)
    5. Biðja nemandann að láta umsjónarkennara vita, best er að ákveða að hittast aftur til að vita hvernig gengur eða spyrja nokkrum sinnum í viku.
  4. Umsjónarkennari ræðir við forráðamenn þolanda og kannar hvað þeir vita um málið og upplýsir þá um að unnið verði að því að stöðva eineltið. Þetta má gera í síma eða á fundi eftir eðli og alvarleika máls.  Biðja þarf forráðamenn um að fylgjast með líðan áfram og vera í reglulegu sambandi.  Aðrir starfsmenn en umsjónarkennarar geta tekið viðtöl við nemendur og það getur reynst vel að sá sem hefur orðið vitni að eineltistilvikum sé með umsjónarkennara í viðtölum.
  5. Ef ofantaldar aðgerðir bera ekki árangur þarf að:
    1. Vísa máli til nemendaverndarráðs
    2. Kalla aftur til foreldra geranda/gerenda, meta hvort gerandi þarf á föstum viðtölum til lengri tíma eða jafnvel sálfræðiaðstoð að halda.
    3. Kalla aftur til foreldra þolanda
    4. Skylda geranda/gerendur til að vera í fylgd starfsmanns í frímínútum
    5. Beita geranda/gerendur útilokun í frímínútum
    6. Beita einvist                                 
    1. Hugsanlegt er að vísa geranda tímabundið úr skóla
  6. Umsjónarkennari skráir hjá sér hvaða aðgerðir hann framkvæmir til að geta gert grein fyrir aðgerðum þegar á þarf að halda. Hann miðlar einnig upplýsingum til þeirra starfsmanna sem hann telur nauðsynlegt að viti um málsatvik og geti komið til aðstoðar við eftirlit og úrvinnslu máls. Það geta eftir atvikum verið upplýsingar um gerendur og þolendur sem þarf að fylgjast með.   Umsjónarkennari leitar aðstoðar stjórnenda og/eða námsráðgjafa eftir því sem honum þykir þurfa við framangreindar aðgerðir og heldur þeim upplýstum um gang mála. Ef allt um þrýtur þarf að vísa málum til barnaverndaryfirvalda eða lögreglu. Skólastjóri tekur ákvörðun um slíkar aðgerðir.

Verði ágreiningur milli skólans og forráðamanna barna um meðferð mála sem ekki tekst að leysa getur hvor aðili um sig vísað málinu til Skóladeildar Akureyrarbæjar.


Hér má finna upplýsingabækling fyrir foreldra um einelti.