Aldursblöndun

Í Naustaskóla fer kennslan að mestu fram í aldursblönduðum námshópum þar sem nemendum úr tveimur (og stundum fleiri) árgöngum er kennt saman án varanlegrar aðgreiningar eftir aldri eða námsgetu.

Markmiðið með aldursblönduninni er að stuðla að námi við hæfi hvers og eins en auk þess að styðja við félagsþroska nemenda og líma skólasamfélagið enn frekar saman.

Að jafnaði er gert ráð fyrir að nemendum í eftirtöldum árgöngum sé “blandað”:

2.-3. bekkur,      4.-5. bekkur,      5.-7. bekkur,      8.-10. bekkur

Gert er ráð fyrir að nemendur í 1. bekk séu að mestu út af fyrir sig en stefnt er að því að þau vinni að einhverju leyti með elstu nemendum Naustatjarnar.  Þá er hugsanlegt að í lestrarnámi eigi þau að hluta samleið með eldri nemendum.

Margvísleg rök eru fyrir aldursblöndun í skólastarfi og hafa þau verið studd rannsóknum.

Eftirfarandi hefur t.d. verið nefnt:

  • Segja má að aldursblandaðir hópar líki að nokkru marki eftir “eðlilegum” aðstæðum í fjölskyldu og nærumhverfi þar sem aldur og þroski fólks er mismunandi. Nú á tímum verja börn minni tíma með fjölskyldu og í umhverfinu utan skólans og fara þar á leiðandi að nokkru á mis við þessar aðstæður ef þær eru ekki í boði í skólanum.
  • Ef augljóst er að nemendur hafa til að bera misjafnan þroska og getu læra þeir að það er eðlilegt að vinna á misjöfnum hraða, að hafa mismunandi færni, áhugasvið o.s.frv.  Ekki eru allir alltaf að gera það sama, það þykir eðlilegt og nemendur skera sig því síður úr. Það er eðlilegt að vera “barnalegur” eða “duglegur” og minna ber á neikvæðum samanburði.
  • Nemendur í samkennslu fá tækifæri til að kynnast fleirum, bæði eldri og yngri nemendum, kynnast því að vera bæði eldri og yngri, þannig getur skapast góður námsandi og umhyggja í hópnum. Nemendur læra félagsleg samskipti þar sem yngri börn læra að þiggja hjálp frá eldri börnum og þau eldri læra að hjálpa, þetta leiðir til félagsmynsturs sem styrkir ábyrgð, forystu og félagslega færni. Margt bendir því til að aldursblöndunin hafi örvandi áhrif á félagslegan þroska nemenda og hegðun svo sem að hjálpast að, deila með sér og skiptast á, taka tillit til annarra, segja satt o.s.frv. (1)  Þetta hefur m.a. verið stutt með rannsókn Gayfers árið 1991 en þar sýndi hann fram á að nemendur í samkennsluhópi höfðu yfirburði í námstækni, félagslegum samskiptum, samvinnu og viðhorfum gagnvart námi og menntun miðað við nemendur í hefðbundnum bekk. (2).  Þá hefur verið nefnt að minni hætta er á að nemendur festist í ákveðinni stöðu í samkennsluhóp sem tekur reglulega breytingum.
  • Nemendur í samkennslu þurfa að læra að vinna sjálfstætt og hjálpast að, það má segja að nauðsynlegt sé að nota fjölbreyttari kennsluaðferðir og því draga þessar aðstæður úr tilhneigingu kennara til að nota einsleita námskrá þar sem allir eiga að vera að gera sömu verkefnin á sama tíma. Ennfremur hafa rannsóknir t.d. Maehr og Midgley sýnt fram á að aldursblöndun hvetur kennara til að velta sífellt fyrir sér eðli náms og kennslu. (2)
  • Rannsóknir á samvinnunámi og félagastuðningi í námi benda til að samvinna og samskipti milli barna í getublönduðum hópum komi öllum til góða, hver sem námsleg staða þeirra er og að samvinnunám í blönduðum hópi sé eitt öflugasta námsform sem til er. Minna má á að samvinna barna sín á milli er mikilvæg í námi, ekki síður en samvinna milli barna og fullorðinna. Aldursblöndun skapar kjöraðstæður fyrir samvinnunám og félagstuðning í námi. (1) Þá hafa verið leidd rök að því að í samkennsluhópum séu meiri möguleikar á því að einstaklingarnir nái að nýta mismunandi greindir eða færni þar sem ekki er gert ráð fyrir því að allir séu að takast á við það sama á sama tíma. (2)

 

Nánari upplýsingar um aldursblöndun má m.a. finna í ágætri grein eftir Rúnar Sigþórsson sem má nálgast hér.

 

Heimildir:

(1)  Katz, Evangeou og Hartman. (1990). The case for mixed-age grouping in early education. Washington D.C. National Association for the Education of Young Children.

(2)  Tomlinson og Allan. (2000) Leadership for Differentiating Schools & Classrooms. Alexandria. ASCD.