Réttindaskóli

Naustaskóli vinnur leynt og ljóst að því að gerast Réttindaskóli Unicef. Ferlið við það hófst 2019 og hefur það starf gengið nokkuð hægt til að byrja með en nú sjáum við fram á það að ná markmiði okkar í nóvember næstkomandi. Það eru 5 markmið er varða leiðina að útnefningu og þau eru:

1. að auka þekkingu á réttindum barna. Börn og fullorðin þurfa að þekkja Barnasáttmálann og geta tengt hann við skóla og frístundastarf .  

2. aukið lýðræði. Starfsfólk þarf að vinna markvisst að því að auka og efla tækifæri barna til þess að hafa raunveruleg áhrif á öll málefni sem þau varða. Starfsfólk tekur tillit til skoðana barna og gefur þeim upplýsingar um ákvarðanir sem teknar eru.  

3. að skapa eldmóð fyrir réttindum barna. Börn verða að fá tækifæri til að læra um eigin réttindi og réttindi annarra barna, þvert á námsfög. Jafnframt eiga börn og ungmenni að fá þjálfun og hvatningu í því að standa á rétti sínum og til að beita sér fyrir mannréttindum í skólanum, frístundastarfinu og samfélaginu öllu .  

4. að Barnasáttmálinn sé hluti af daglegu starfi. Barnasáttmálinn þarf að vera rauður þráður í skóla- og frístundastarfi. Stjórnendur vinna með markvissum hætti að því að gera sáttmálann að viðmiði í ákvarðanatöku og hann er grunnurinn að daglegum samskiptum barna, kennara og frístundaráðgjafa. Barnasáttmálinn er einnig notaður sem viðmið þegar skólar, frístundaheimili og félagsmiðstöðvar móta stefnur og reglur starfsins. 

5. er samstarf út frá þörfum barnsins. Skólar, frístundaheimili, félagsmiðstöðvar og aðrar stofnanir í nærumhverfi barnsins þurfa að eiga í samstarfi til að tryggja réttindi barna. Samstarfið er þróað með það að markmiði að deila reynslu og efla réttindastarfið. Markmiðið með auknu samstarfi er einnig að vernda réttindi þeirra barna sem þurfa sértækan stuðning með viðeigandi aðlögun.    Þannig er verkefnið Réttindaskóli og -frístund UNICEF bæði hugmyndafræði og hagnýtt verkefni sem miðar að því að auka virðingu, vernd og framkvæmd mannréttinda.