Orð af orði

Unnið er að innleiðingu kennsluaðferðanna Orð af orði og Lestur til náms í 4.-9. bekk skólans.  Um er að ræða þróunarverkefni í samvinnu við Skólaþróunarsvið H.A., ráðgjafi verkefnisins er Guðmundur Engilbertsson.

Markmið Orðs af orði er að nemendur efli orðvitund sína, orðaforða og hæfni til að ráða merkingu orða; að þeir geti nýtt orðaforða sinn á fjölbreyttan hátt og efli skilning sinn í tengslum við mál, lestur og nám. Stefnt er að því að nemendur efli lesskilning og færni í að nota orðaforða sinn á markvissan hátt m.a. til að eiga auðveldara með að skilja námstexta og að tjá sig, greina frá þekkingu sinni og skoðunum með blæbrigðaríku máli. Orðaforðakennslu er fléttað við aðra kennslu og nemendur læra ýmsar orða- og námsaðferðir til að beita í vinnu sinni með námsefni. Nemendur fá þjálfun við greiningu og sundurgreiningu orða (orðasambönd, orð og orðeiningar, að bera saman skyldleika orða, að greina mismunandi merkingu orða og mynda orð úr orðeiningum). Nemendur læra að nýta sér vísbendingar í samhengi texta til að ráða merkingu orða. Orðaforðakennslu er m.a. fléttað við gagnvirkan lestur (reciprocal teaching) og gerð hugrænna korta (cognitive maps, mind maps, concept maps). Jafnframt er aukið við yndislestur heima og í skóla sem leið til að styrkja orðaforða og lesskilning.

· Meginmarkmið Lesturs til náms er að nemendur efli námstækni í tengslum við lestur og lesskilning. Það gera þeir með því að læra gagnvirkan lestur, efla markvisst hugræna úrvinnslu við lestur, brjóta upp hefðbundið textaform og skrá inntakið á greinandi, skapandi og myndrænan hátt (hugar- og hugtakakort). Að sama skapi læra nemendur að nota hugræn kort til að vinna á skapandi hátt. Gert er ráð fyrir að aðferðirnar verði notaðar í tengslum við hefðbundið námsefni í bóklegum greinum. Kennarar læra að nota aðferðir og kenna nemendum þær markvisst, skref fyrir skref.

Bæklingur um Orð af orði - smellið hér