02.11.2017
Við erum afskaplega stolt af því að kynna til sögunnar nýja læsisstefnu sem nú verður tekin í notkun í leik- og grunnskólum Akureyrarbæjar. Læsisstefnan Læsi er lykillinn var formlega kynnt á vegum fræðslusviðs Akureyrarbæjar og Miðstöðvar skólaþróunar HA að viðstöddu fjölmenni fimmtudaginn 7. september síðastliðinn. Þá var sérstök kynning á stefnunni á Fundi fólksins í Hofi um nýliðna helgi.
Megintilgangur læsisstefnunnar er að efla læsi í víðum skilningi og stuðla að skapandi og gagnrýninni hugsun barna og ungmenna.
Læsisstefnan er afrakstur rúmlega þriggja ára ferlis sem hefur byggst á öflugri samvinnu margra aðila. Skipulag vinnunnar tók mið af hugmyndum um lærdómssamfélag (e. learning community) þar sem lögð var áhersla á að allir sem hlut eiga að máli kæmu að vinnunni.
Læsisstefnan Læsi er lykillinn er byggð á ástralskri fyrirmynd en þróuð og staðfærð að aðalnámsskrá íslenskra leik- og grunnskóla.
Unnið er út frá hugmyndafræðinni um læsi í víðum skilningi sem skiptist í þrjú meginsvið: Samræða, tjáning og hlustun, lestur, lesskilningur og lesfimi og ritun og miðlun. Hagnýt gögn stefnunnar byggja á þrepum um þróun læsis, þar sem sett eru fram viðmið um færniþætti og áherslur í kennslu út frá öllum þáttum læsis.
Samvinna við kennara á vettvangi leik- og grunnskólanna hefur verið lykilatriði í þróun á innihaldi stefnunnar en sérfræðingar á Miðstöð skólaþróunar við HA hafa stýrt verkinu.
Læsisstefnan „Læsi er lykillinn“ birtist á heimasíðunni www.lykillinn.akmennt.is og er hún opin öllum. Á síðunni er að finna heildaráherslur stefnunnar ásamt ýmsu ítarefni sem er hagnýtt bæði fyrir kennara, foreldra og aðra þá sem hafa áhuga á læsi barna.
Hönnunarfyrirtækið Geimstofan, auglýsinga- og skiltagerð á Akureyri sá um hönnunarvinnu á útliti efnis á síðunni.
Við hvetjum bæði foreldra og alla þá sem fylgjast með skólastarfinu til að skoða hina nýju heimasíðu læsisstefnunnar www.lykillinn.akmennt.is
Þar er að finna mikið af upplýsingum, en fyrst og fremst metnaðarfulla læsisstefnu fyrir leik- og grunnskólastigið sem gerir kennurum kleift að vinna enn markvissar að öflugu læsi barna í skólunum okkar.
Við viljum vekja athygli á að heimasíðan er opin öllum.
Kærleikskveðja,
Soffía Vagnsdóttir
Sviðsstjóri fræðslusviðs
netfang: soffiav@akureyri.is
Lesa meira
26.10.2017
Hér koma nokkrar myndir frá Halloween balli 7. bekkjar!
Lesa meira
25.10.2017
Kæru foreldrar og forráðamenn.
Í dag var óundirbúin brunaæfing í Naustaskóla. Samkvæmt öryggiskröfum eldvarnareftirlitsins ber okkur að hafa eina slíka æfingu á hverju skólaári og var ákveðið að gera það áður en veturinn skellur á. Brunaboðinn fór í gang kl. 10:30 og nemendur og starfsfólk fylgdu verklagsreglum um rýmingu húsnæðisins. Nemendur fóru út á sokkunum og því eru blautir og skítugir sokkar í töskum nemenda.
Rýmingin gekk í flesta staði mjög vel en einnig komu hlutir í ljós sem við þurfum að æfa betur og munum við skerpa á verklagsreglum í kjölfarið. Síðar á skólaárinu verður svo undirbúin brunaæfing þar sem nemendur og kennarar fá tækifæri til þess að æfa rýmingu á nýjan leik.
Umsjónarkennarar settust niður með sínum hópum að æfingu lokinni og ræddu um brunaæfinguna. Mögulegt er að einhverjir nemendur vilji ræða málin frekar heima.
Bestu kveðjur,
Bryndís, Alla og Þorgeir
Lesa meira
24.10.2017
Á viðtalsdaginn, fimmtudaginn 26. okt verður 10. bekkur með sölu á skólapeysum sem kosta 6000 krónur.
Einnig verða til sölu bolir á 2500 krónur.
Ágóði sölunnar rennur í ferðasjóð bekkjarins.
Lesa meira
19.10.2017
7. bekkur stendur fyrir hrekkjavökuballi mánudaginn 23. október sem er liður í fjáröflun fyrir Reykjaferð þeirra.
Ball fyrir 1.-3. bekk verður kl. 16:00-17:30 Aðgangseyrir er 500 kr, innifalið er svali og popp.
Ball fyrir 4.-7. bekk verður kl. 18:00-19:30 Aðgangseyrir er 500 kr, sjoppa verður á staðnum.
Upplagt er að mæta í búningi og verðlaun verða veitt fyrir besta búninginn!
Lesa meira
29.09.2017
Kæra skólasamfélag.
Í ljósi umræðna á Facebook og í fjölmiðlum um atvik sem átti sér stað á skólalóðinni á miðvikudagsmorgun, vilja stjórnendur skólans koma því á framfæri að brugðist var strax við og starfsmenn skólans fylgdu málinu vel eftir. Okkur þykir miður hversu neikvæð umræða hefur skapast í kringum skólann okkar. Við erum ávallt tilbúin til að ræða málin og hvetjum því foreldra til að koma beint til skólans hafi þeir áhyggjur eða vangaveltur varðandi skólastarfið. Starfsfólk Naustaskóla sinnir starfi sínu af alúð og heilindum og hefur hagsmuni nemendanna að leiðarljósi.
Lesa meira
28.09.2017
Kæru foreldrar,
Nú er komið að því að halda árlegan aðalfund foreldrafélags skólans. Hann verður haldinn fimmtudaginn 5. október kl. 20:00 – 21:00 í sal skólans og verður bæði byrjað og stoppað á réttum tíma.
Í upphafi fundar mun Eyrún Kristína Gunnarsdóttir, sálfræðingur vera með erindi um kvíða barna og bjargráð við honum.
Að erindi hennar loknu munu fara fram almenn aðalfundarstörf
Foreldrafélagið er vettvangur foreldra til að kynnast og taka virkan þátt í menntun og starfi barna sinna og mikilvægt að foreldrar séu virkir í því starfi svo að það takist sem best :)
Gert er ráð fyrir að einn fulltrúi frá hverju heimili mæti á aðalfundinn og hlökkum við til að sjá ykkur sem flest,
Kaffi og með því á fundinum … og við hættum á slaginu 21:00 :)
Stjórnin
Lesa meira