Reglur um símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar

Símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar

Sáttmáli um símafrí í grunnskólum Akureyrarbæjar tók gildi í ágúst 2024. Tilgangurinn með honum er fyrst og fremst að skapa góðan vinnufrið í skólum, stuðla að bættri einbeitingu, auknum félagslegum samskiptum og vellíðan nemenda og starfsfólks skóla.

Í sáttmálanum felst eftirfarandi:

· Í grunnskólum Akureyrarbæjar skulu nemendur ekki nota síma á skólatíma, hvorki í skólanum eða á skólalóð. Leið milli skóla og íþróttamannvirkja telst til skólalóðar. Þetta á einnig við önnur snjalltæki sem trufla kennslu og einbeitingu (t.d. snjallúr)

· Á föstudögum er nemendum á unglingastigi heimilt að nota síma í frímínútum á skilgreindum svæðum.

· Símar og önnur snjalltæki eru ávallt á ábyrgð eigenda sinna.

· Komi nemendur með síma í skólann, þá skulu nemendur í 8. – 10. bekk geyma símana í læstum skápum og yngri nemendur geyma símana í töskum. Símar skulu ekki geymdir í fatnaði nemenda eða á borðum. 

Viðbrögð við notkun síma í leyfisleysi:

Sé reglum um símafrí ekki fylgt eftir fær nemandi áminningu/samtal við kennara og tækifæri til setja símann á viðeigandi stað. Við endurtekið brot er nemanda boðið að velja á milli þess að:

A. afhenda símann sem verður geymdur á skrifstofu skólastjórnanda til loka skóladags nemanda.

B. fara á skrifstofu skólastjórnanda og bíða þar uns foreldri hefur komið í skólann til að ljúka afgreiðslu málsins.

Við Ítrekuð brot á símafríi er boðað til fundar með nemanda og foreldrum og skráning gerð í Mentor.